Þú ert líklega að borga of mikið fyrir snjallsímann þinn (2020)

Sigmundur Halldorsson
7 min readNov 19, 2020

Þetta er áhugavert ár fyrir þá sem eru að velta fyrir sér kaupum á nýjum snjallsíma. Þegar við horfum til þess að þörfin til þess að uppfæra snjalltæki hefur í raun verið að minnka á undanförnum árum. Þá er rétt að byrja á því að gera sér grein fyrir því hvort raunveruleg þörf sé á því að uppfæra tækið sem þú átt. Vísbendingar erlendis frá benda til þess að fleiri séu farnir að bíða með uppfærslur og verðþróun á tækjunum hefur ýtt undir þessa þróun. Þegar við greiðum hátt í þriðja hundrað þúsund fyrir snjallsíma, er líklegt að við séum að horfa til þess að nýta það tæki lengur en fram að næstu kynslóð tækja frá framleiðandanum. Þarna skiptir því máli hversu lengi má búast við hugbúnaðaruppfærslum frá framleiðanda. Þar hefur engum framleiðenda raunar tekist betur en Apple. Því Apple hefur gefið út að tæki frá þeim, muni fá uppfærslur í 7 ár eftir að þau koma á markað og iOS 14 styður sem dæmi iPhone 6S og 6S Plus, auk fyrstu útgáfu af iPhone SE. Þetta er mun lengri tími en nokkur Android framleiðandi hefur opinberlega gefið upp. En meira um það síðar.

Það er því ágætt að byrja að ræða um hvað er í boði frá Apple. Sem raunar er að bjóða óvenju spennandi valkost fyrir þá sem ekki vilja eyða of miklu. Tæki, sem að mínu mati, ætti að vera vinsælasti valkosturinn frá Apple. Sem er iPhone SE og kostar rétt um 85 þúsund. Þú færð ekki jafn mikið fyrir krónuna í neinu öðru tæki frá Apple. En ef 12 freistar meira. Þá er það þetta sem þú þarft að spá í. Iphone 12 Pro er að fara kosta þig um 200 þúsund. Eða allt upp í 260 þúsund ef þú ætlar í dýrustu útgáfuna. Þú færð allt það besta sem Apple hefur týnt saman í farsíma, en ekkert hleðslutæki reyndar. Allt annað er sérhannað af Apple og það eru engar líkur á því að þú verðir óhress með iPhone 12 Pro. Þú getur líka sparað þér 30 þúsund og farið niður í bara 12. Sem er reyndar alls ekkert bara. Því iPhone 12 tikkar í öll boxin út frá mínum bæjardyrum. Hönnunin er góð, skjárinn er frábær, góðar myndavélar, tiltölulega léttur og með öflugum hleðslumöguleikum. Ég hefði viljað sjá öflugra rafhlöðu, en skil af hverju Apple hefur viljað halda þyngdinni niðri. En tölum aðeins um 5G.

Margir hafa líklega heyrt talað um 5G, en ekkert íslenskt símafélag er þó byrjað að bjóða 5G þjónustu, þó vissulega hafi farið fram hér einhverjar prófanir og hægt sé að standa við eina sendi Nova til þess að prófa þessa upplifun. En 5G er eitt af því sem Apple hefur lagt mikla áherslu á við markaðssetningu á iPhone 12. Iphone 12 styður því 5G. Ef marka má hefðina, þá mun þessi áhersla Apple hafa þau áhrif að símafélög munu nú fara að leggja áherslu á 5G. Sem þýðir að ég á ekki von á öðru, en þau íslensku munu fara hefja 5G væðingu 2021 og það þýðir að sími sem er án 5G. Gæti haft minna aðdráttarafl. Sérstaklega ef ætlunin er að nýta símtækið í að minnsta kosti 3 ár. Það er hins vegar rétt að hafa það í huga að 5G er ný tækni og alls ekki ljóst hversu hratt það mun komast í notkun, eða hversu mikil áhrif það mun hafa á upplifun okkar. En það er sannarlega engin skortur á 5G valkostum þegar kemur að Android símum.

Byrjum á því að ræða vörumerkin sem eru í boði. Google hefur ekki enn séð ástæðu til þess að bjóða sín tæki á íslenska markaðnum og því miður eru allar líkur á því að Huawei séu úr leik þegar kemur að farsímum. Það sem hefur verið að gerast hjá framleiðendum Android síma er að ekki aðeins hafa tækin orðið betri og fullkomnari, heldur hafa öflugustu tækin orðið dýrari. Á sama tíma hafa gæðin almennt verið að aukast. Samsung býður langdýrasta tækið á markaðnum, Galaxy Z Fold2 5G sem býðst á rétt tæpar 370 þúsund. Það er hins vegar Samsung Galaxy S20 FE 5G sem er mun áhugaverðari valkostur. Knúinn af Snapdragon 865, með 120Hz 6,5 tommu Super Amoled skjá og 6GB/128GB í minni — en hér á landi er verið að bjóða aðra útgáfu án 5G og með Exynos 990 örgjörvanum á 120 þúsund. Sem mér þykir virkilega undarlegt. Í Þýskalandi má velja og er 5G útgáfan litlu dýrari og fyrir áhugasama er rétt að benda á að Amazon.de býður upp á heimsendingu á þessum ágæta Samsung síma til Íslands. Sem myndi vera á rétt um 160.000 þúsund með sendingarkostnaði og VSK. Í raun má segja að tími þess sem hér fyrir nokkrum árum var kallað “flagship killer” heyri nú sögunni til í bili. Sem er samt ekki vondar fréttir fyrir skynsama kaupendur snjallsíma.

Samsung Galaxy S20 FE 5G

Eins og áður sagði þá hefur verðlag á dýrustu Android tækjum frá flestum framleiðendum farið hækkandi. Samsung er enn með dýrustu tækin, en OnePlus og Xiaomi hafa bæði hækkað verð á sínum bestu tækjum sem sannarlega veita Samsung harða samkeppni. En fyrir þann sem þetta skrifar eru samt mest spennandi valkostirnir í snjallsímum, ekki lengur í rándýrum snjallsímum. Harðasta samkeppnin er að mínu mati í miðlungstækjunum sem gefa raunar flagskipunum orðið lítið eftir. Það er líka athyglisvert að taka eftir því að Sony, Google, Nokia og Motorola eru öll á þessum markaði. Það má líka leiða að því líkum að þarna séu framleiðendur að horfast í augu við, að eftirspurn eftir rándýrum snjallsímum er minni á tímum Covid. En hvað er það sem skiptir máli við val á snjallsíma árið 2020?

Það er ágætt að byrja á því að ákveða hvað það er sem skiptir mestu máli. Ef þú vilt til dæmis alltaf vera með nýjustu útfærslu Android, þá myndi ég velja mér síma frá Google. Google mun tryggja uppfærslur fyrir sína síma í 3 ár og þannig mun sá sem fjárfestir í Pixel 5 síma fá Android uppfærslur fram í október 2023. Aðrir framleiðendur eru yfirleitt að styðja við uppfærslur í styttri tíma. Yfirleit njóta dýrustu símarnir þess að fá fleiri uppfærslur, en það er þó misjafnt. En horfum þá til vélbúnaðar. Skjárinn er það sem skiptir hvað mestu máli og það sem er að breytast á árinu 2020 er að endurnýjunarhraði (refresh rate) er að hækka. 60Hz hefur verið ríkjandi í nokkur ár, en núna eru komnir á markað símar með 90 og 120Hz endurnýjunarhraða. Varaðu þig bara á því að þú vilt fá þér OLED skjá, en ekki LCD skjá. Ein góð leið til þess að sjá hvort skjárinn er OLED, er að LCD skjár er ekki með fingrafaralesara á skjánum. Að mínu mati ertu alltaf að fara velja OLED skjá. Þeir eru einfaldlega betri. Hvort þú sættir þig við 60Hz er smekksatriði — en það er sannarlega sjáanlegur munur.

Poco F2 Pro

Þú þarft ekki endilega að fara í öflugasta örgjörva sem fæst — Snapdragon 865+ er nýjasta útgáfan — en ég tel bestu kaupin liggja í Snapdragon 765G sem er sambærilegur við Snapdragon 855 sem var það besta í boði 2019. Það er augljóst að Qualcomm er þar með örgjörva sem er að skila hvað mestu þegar litið er til kostnaðar. Fyrir þá sem vilja hins vegar ekkert annað en það öflugasta, þá er óhætt að mæla með því að skoða Pocophone Poco F2 Pro. Sem er raunar afkvæmi Xiaomi, þó merkið sé annað. Þetta er raunar sá sími sem gefur hvað mest fyrir hverja krónu. Snapdragon 865 örgjörvi, stuðningur við 5G, 4700 mAh rafhlaða, stór 6,67 tommu skjár og raunar er síminn allur bæði fremur stór og þungur. Auk þess sem engir skortur er á myndavélum á Poco F2 Pro og því klárlega vert að skoða þennan síma sem fæst hér heima fyrir 99.990 krónur í 6+128 GB útgáfu.

Fyrir fjölmarga skiptir nefnilega myndavélin mestu þegar kemur að vali á síma. Allir framleiðendur bjóða tæki þar sem linsunum hefur fjölgað og það eru nokkrar útgáfur í gangi og misjafn fjöldi. Þarna er því rétt að fara varlega. Því það eru nefnilega nokkuð skýr tengsl milli verðs og gæða. Það hefur verið vinsælt að bæta við linsum og auglýsa 4 myndavélar, þegar í raun er fjöldi þeirra ekki það sem mestu skiptir. Þarna skiptir annað mun meira máli. Annars vegar sá skynjari sem myndavélin notar og hins vegar gæði hugbúnaðar. Því bæði Google og Apple nýta sér gervigreind til þess að ná fram frábærum myndgæðum, án þess að vera endilega með bestu “myndavélina” eða flestar linsur. Samsung hefur líka gert mjög góða hluti og vert að skoða alla þeirra snjallsíma ef myndavélin skiptir þig máli. En að mínu mati er það Xiaomi Mi Note 10 — sími sem fæst hér á landi fyrir rétt undir 94.000 krónum — sem eru bestu kaupin í síma með góðri myndavél. Klárlega ekki sá kraftmesti á markaðnum, en myndavélarnar eru góðar.

Xiaomi Mi Note 10

Að mínu mati er 2020 árið sem Xiaomi hefur verið að gera gott mót. Verð og gæði hafa farið saman, en hins vegar er stýrikerfi þeirra nokkuð langt frá Android Google. Xiaomi naut raunar góðs af því að Huawei hefur þurft að færa sig af markaðnum, en kínversku framleiðendurnir eru, að mínu mati, að setja frábær tæki á markaðinn. En á sama tíma vil ég aftur benda á að það eru ýmsir virkilega skemmtilegir valkostir í gangi í ár. Verðlag hér á landi hefur líka lagast og það er ekki lengur augljós kostur að kaupa tæki erlendis frá. Fáir að ferðast til útlanda í verslunarleiðangri og því er þetta árið sem við verslum á Íslandi.

--

--

Sigmundur Halldorsson

I get really excited about the impact of technology, effectiveness of marketing, social media and politics and I love to travel. In Icelandic and English.