Á ég að hafa áhyggjur af öllu þessu eftirliti?

Sigmundur Halldorsson
3 min readApr 8, 2020

Ég hef um nokkuð langt skeið verið að starfa á hinu stafræna sviði. Það hefur verið merkileg reynsla að sjá hvernig hlutir sem áður og fyrr voru flóknir, erfiðir og dýrir. Eru nú einfaldari og ódýrari. Ég á hérna heima hjá mér útgáfu af Encyclopædia Britannica frá því um miðjan sjöunda áratuginn, sem ég kalla stundum analog internet. En ætti kannski frekar að kalla analog Wikipedia. Ég er auðvitað að halda í þetta fyrir tóma nostalgíu barnæsku minnar. Því ég ólst upp við að leita í þessu riti að svörum, en í dag myndi það líklega vera Google sem myndi svara spurningum mínum. Raunar bjó ég á heimili þar sem bækur fylltu hillur. Það hafði án efa áhrif á mig og ekki síður hitt að ég hef alltaf verið forvitinn um alskonar. Þarna á æsku heimilinu voru bækur sem komu frá afa og höfðu verið gefnar út allt frá upphafi 20 aldar. Ég lærði líka fljótlega að nýta mér bókasöfn og hafði ofboðslega gaman af lestri.

Analog Internet frá Encyclopædia Britannica

Svo þegar ég uppgötva að það sé til eitthvað sem heitir Internet og þar sé gríðarlegur upplýsingabrunnur. Efni sem hægt sé að nálgast frá öllum heimshornum. Leið mér svolítið eins og barni í dótabúð. Ég áttaði mig samt fljótlega á því að þessi dótabúð var ekki galla laus. Í henni voru myrk horn að myndast og sömuleiðis var hætta á því að einkalíf okkar. Sem vel að merkja er fjallað um með eftirfarandi hætti í stjórnarskrá landsins

Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Nú er það vissulega svo að á þessu eru vissulega undantekningar. En það er þó tekið fram í stjórnarskrá að þetta eigi eingöngu að gerast í samræmi við lög. Þrátt fyrir þetta er ekki annað að sjá en fjölmargir, bæði innlendir og erlendir, aðilar þverbrjóti þessi fyrirmæli stjórnarskrár og komist upp með það án athugasemda.

Það væri hægt að eyða í þetta löngu máli. En ég ætla að hafa þetta einfalt. Svo það skal tekið fram að þetta er einföldun. Í stuttu máli þá hefur Google, Apple, Facebook og Microsoft, ásamt fjölda fyrirtækja bæði hér heima og erlendis. Tekist að finna sér leið inn í einkalíf okkar, inn á heimilin okkar og sannarlega orðið að heimilisvinum. Þetta hefur gerst hægt og sígandi og þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir hefur í raun lítið verið gert til þess að bregðast við þessari þróun. Sem þýðir að þetta stjórnarskrár ákvæði er eiginlega lítið annað en orðin tóm. Í það minnsta sem stendur.

Nú er ekki endilega ástæða til þess að ætla að allt fari á versta veg. Hér verði komið á einhverju því eftirlitsþjóðfélagi sem Orwell lýsti svo vel í 1984. Raunar tel ég það fremur ólíklegt eftir lestur á Surveilance Capitalism. En ég tel þó fulla ástæðu til þess að við veltum því fyrir okkur hvort einkalíf sé okkur mikilvægt. Það getur varla verið að það sé tilviljun ein sem réði því að þetta ákvæði er í stjórnarskrá?

Það er líka full ástæða til þess að velta fyrir sér hversu nálægt okkur við viljum hleypa markaðsaðilum. Því ég hef sannarlega ekki verið hikandi við að tileinka mér og nýta þá tækni sem ég veit að heldur uppi þessu eftirliti með mér. Ég og Alexa þekkjumst bara vel. Kínverska snjallúrið mitt sendir upplýsingar um ferðir mínar stöðugt inná vefþjóna í alþýðulýðveldinu þar sem ég veit að engar reglur gilda um notkun og meðferð persónuupplýsinga. Myndavél sendir myndskeið í Amazon skýið og ég leyfi Google að fylgjast með mér. Nota alskonar smáforrit sem safna um mig upplýsingum og senda til Facebook. Svo ég er sannarlega ekkert að reyna að komast undan eftirlitinu. Ég velti því samt fyrir mér hvort það geti ekki verið að við höfum þarna tapað einhverju. Ekki viljandi og líklega án þess að hugsa okkur mikið um. Í litlum skrefum. Hvort ekki sé ástæða til þess að við stöldrum við og veltum því fyrir okkur hvers vegna þessir aðilar þekki okkur líklega betur en okkar nánasta fólk.

--

--

Sigmundur Halldorsson

I get really excited about the impact of technology, effectiveness of marketing, social media and politics and I love to travel. In Icelandic and English.