Hvert stefnum við eftir storminn?

Sigmundur Halldorsson
5 min readMay 23, 2020

Undanfarnar vikur hafa gengið yfir náttúruhamfarir á íslenskum vinnumarkaði. Náttúruhamfarir, því þetta tengist sannarlega ekki efnahagslegum ákvörðunum, heldur stóðum við frammi fyrir 2 vondum valkostum vegna Covid19 þar sem niðurstaðan var alltaf efnahagslegt áfall. Það varð ekki umflúið, en það hvernig við tökumst á við þessa áskorun mun segja til um hvort við nýtum kreppuna til þess að skila okkur á betri eða verri stað.

Tölum fyrst um hið augljósa. Það standa tugþúsundir Íslendinga frammi fyrir bæði fjárhagslegu og persónulegu áfalli. Atvinnumissir er gríðarlegt áfall öllum þeim sem í því lendi og rannsóknir benda til þess að þetta hafi áhrif á andlega og líkamlega heilsu og minnki lífslíkur okkar. Það ætti því að vera mikilvægt markmið að koma sem flestum aftur í vinnu. Þó fordæmalaust sé mikið notað, þá eru til fordæmi um miklar kreppur. Við erum núna að standa frammi fyrir sambærilegu ástandi og ríkti á fjórða áratug síðustu aldar. Það orsakaði gríðarleg félagsleg vandamál, uppgang öfga og endaði ekki fyrr en síðari heimstyrjöldin skall á.

Við sem höfum fylgst með tækniþróun og vinnumarkaðinum höfum varað við því í nokkur ár að í augsýn væri tæknibreyting sem gæti haft mikil áhrif. Við höfum notað 4 iðnbyltingin sem samheiti yfir þá þætti sem við teljum að muni hafa þessi áhrif. Rétt er að taka fram að þetta er ekki sjálfvirknivæðing. Sú bylgja er enn í gangi og hefur nú þegar haft margvísleg áhrif. Fjórða iðnbyltingin er hins vegar næsta skrefið í þessari þróun. Þar sem gervigreind verður notuð til þess að sjálfvirknivæða og einfalda flókin verkefni sem hingað til hafa kallað á sérfræðinga. Þar sem flest verður tengt við netið og söfnun og notkun upplýsinga verður mun umfangsmeiri en áður hefur tíðkast. Sú kreppa sem við erum að upplifa í kringum Covid19 mun án efa hraða þessari þróun. Ég velti því til dæmis fyrir mér hvort fjarfundarformið sé ekki mun þægilegra en heimsókn í útibú til þess að ræða við þjónustufulltrúa. Það eru amk. töluverðar líkur á því að samtal við þjónustufulltrúa sé ódýrara fyrir þann sem veitir þjónustuna ef ekki þarf að kosta til eins miklu í dýrar innréttingar. Þjónustufulltrúa sem jafnvel þarf ekki að vera á skrifstofu.

Við erum nú þegar að sjá hvernig breytingar sem byggja á notkun á netinu eru farnar að koma fram í neytendahegðun. Sem hefur orðið til þess að áratuga gömul og rótgróin verslunar og þjónustufyrirtæki heyra nú sögunni til. Jafnframt má benda á þær miklu breytingar sem hafa orðið á fjölmiðlum, útgáfu, auglýsingamarkaðinum, markaðsmálum osfrv. sem hin stafræna bylting hefur sannarlega umbylt. Það var heldur engin tilviljun að uppgangur íslenskrar ferðaþjónustu varð samhliða gjörbreytum heimi í dreifingu og sölu á ferðaþjónustu. Á sama tíma erum við að horfa fram á breytingar á vinnumarkaði þar sem breytingar eru að verða á bæði störfum og starfsumhverfi.

Það er rétt að taka það fram að í þessu efni er ekkert sjálfgefið. En breytingar eru hins vegar óumflýjanlegar. Um leið og möguleikar aukast á því að vinna sé ekki unnin á föstum vinnustað, á föstum vinnutíma og hægt sé að sinna henni hvar sem er. Þá er augljóst að þar verður til tækifæri til þess að færa þá vinnu frá Íslandi. Það hafa fjölmargir aðilar í nýsköpun nýtt sér og þannig hafa störf við hugbúnaðargerð og þróun verið færð úr landi og flutt til Litháen, Úkraníu, Búlgaríu og Indlands. Á sama tíma er nokkuð ljóst að hlutverk þjónustufulltrúa hefur ekki minnkað. Við elskum fyrirtæki þar sem við fáum mikla og góða þjónustu. Það er bókstaflega ekkert sem kemur í stað þessa mannlega þjónustufulltrúa. Það er búið að reyna alskonar. Neytendur hafa ævinlega hatað þær lausnir. Það sem gervigreind í samvinnu við snjalltækni gerir okkur kleyft að gera. Er að búa til upplifun sem er svo lík þeirri mannlegu. Að stór hluti þeirra sem reyna hana telja sig vera í samskiptum við annað fólk. Þetta er kannski stærsta breytingin sem er að eiga sér stað í tæknilegri getu. En þetta tekst ekki alltaf vel. Það hefur komið í ljós að talmál er svo flókið að við áttum okkur á því að þarna er ekki fólk á ferðinni. Spjallmenni sem við notum í skrifuðum samskiptum hafa náð betri árangri. Á sama tíma er vel hægt að sjá fyrir sér að einhverjum gæti fundist gott að eiga heima hér á landi. Þrátt fyrir að starfa hjá fyrirtæki í öðru landi. Þessum breytingum fylgja bæði tækifæri og ógnanir.

Nokkur af stærstu hátækni fyrirtækjum Bandaríkjanna hafa þannig líst því yfir að þau ætli sér að leyfa starfsfólki sínu að stunda vinnu heima fram til ársins 2021 og alls ekki sé víst að þau muni taka upp fyrri siði. Þetta þýðir að ef eitthvað af þessu starfsfólki langar til þess að starfa frá Íslandi næstu mánuði, þá er ekkert því til fyrirstöðu. En hvorki útlendingalöggjöf eða íslenskur vinnumarkaður er byrjaður að takast á við þessa breytingu. Það hafa verið skipaðar nokkrar nefndir og ég hef sjálfur unnið innan VR að því að verkalýðshreyfingin bregðist við þessum breytingum. Hér á landi eru núna um 90% vinnuafls í verkalýðsfélagi. Sem er sannarlega hæðsta hlutfall í heimi. Á sama tíma bendir tölfræðin til þess að hér á landi séu laun há. Sem væntanlega þýðir að vinnuveitendur gætu hugsað sér að ná fram launa lækkunum með því að brjóta á bak aftur verkalýðsfélögin. Áskorunin fyrir verkalýðsfélögin er því að koma í veg fyrir að þetta gerist, án þess að standa í vegi fyrir óumflýjanlegum tæknibreytingum.

Þegar horft er til framtíðar þá endurspeglum við oftast fortíðina. Lengi vel gengu hugmyndir um nýsköpun á Íslandi út á landbúnað eða sjávarútveg. Það ætti hins vegar að vera orðið ljóst að eina raunhæfa leiðin er að nýta hugvitið til skapa hér störf. Sem þýðir að ef okkur tekst að laða hingað meira af snjöllu fólki, því líklegra er okkur til þess að ganga vel. Mikið af störfum á þessu sviði má síðan án vandræða starfa við, án þess að vera í hefðbundnu ráðningarsambandi. Þú getur til dæmis unnið sem einyrki. Sem hefur í för með sér margvíslegt óhagræði ef þú ert starfandi á Íslandi. Sem sannarlega ætti að vera hægt að breyta. Raunar þarf kannski ekki annað en viljan til. Í það minnsta sé ég fjölmörg tækifæri í þessari stöðu. Við eigum að geta ákveðið hvort ferðaþjónusta sé sá grunnur sem henti okkur best til þess að skapa hér vel launuð störf fyrir vel menntaða þjóð. Hvort ekki sé löngu kominn tími til þess að opna landið mun meira fyrir erlendu vinnuafli, sérþekkingu og fjárfestingu frá löndum utan EES. Á sama tíma og við stöndum vörð um það sem gerir Ísland svo freistandi land til þess að búa á. Öflugt velferðarkerfi, há laun, öryggi og frjálslyndi.

--

--

Sigmundur Halldorsson

I get really excited about the impact of technology, effectiveness of marketing, social media and politics and I love to travel. In Icelandic and English.