Hvernig getum við komið ferðaþjónstu aftur í gang?

Sigmundur Halldorsson
4 min readApr 9, 2020

Þetta er mjög áhugaverð spurning. Ég er hreint ekki viss um að ferðaþjónusta eigi eftir að taka við sér á næstu mánuðum og afar ólíklegt að þetta sumar verði hér fjöldi ferðafólks erlendis frá. Við hreinlega erum ekki á þeim stað að geta sagt að það sé þorandi að opna landið hratt fyrir ferðafólki.

Ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér hvernig þetta gæti gerst. Ég sé fyrir mér að það séu 3 atriði sem þurfa að vera til staðar. Svona áður en við getum hafist handa við að byggja aftur upp íslenska ferðaþjónustu. Ég hef raunar ekki miklar áhyggjur af því að aðdráttarafl Íslands muni minnka. Þvert á móti. Ég held líka að mörg okkar muni drífa okkur til útlanda um leið og færi gefst. Sérstaklega þau sem nú þegar hafa náð heilsu eftir Covid19.

Ísland er magnað

Hver eru þessu 3 atriði?

Í fyrsta lagi þurfum við að tryggja að við séum ekki að fara flytja inn smitandi ferðafólk. Þetta er svona hið augljósa. Með einhverjum hætti þarf að tryggja að það fólk sem er að ferðast sé ekki að smita. 2 metra fjarlægðar bil myndi t.d. þýða að flugfélög þyrftu að fækka sætum í flugvélum töluvert. Sem er ekkert ómögulegt en dregur bæði úr tekjum og myndi væntanlega snarhækka flugfargjöld. Jafnframt er nokkuð augljóst að alskonar í flugstöðum þyrfti að breytast. Biðraðir í öryggisskoðun, allskonar sjálfsafgreiðslustöðvar o.s.frv. Ekki ómögulegt en myndi óhjákvæmilega hafa áhrif á fjölda sem gæti farið í gegnum flugstöð. Eða þá að við myndum krefjast þess að allir sem ætla sér að ferðast hingað séu ekki smitaðir eða smitandi. Til þess þyrfti eftirlit og vel má sjá fyrir sér að ákveðin lönd myndu setja takmarkanir á ferðafólk eftir uppruna. Hitamyndavélar, skyndipróf o.s.frv. myndi vera til staðar í flugstöðvum. Ekkert sem er ómögulegt, en myndi kalla á nýja aðstöðu í flugstöðvum og öðrum stöðum þar sem fólk er að ferðast.

Í öðru lagi þurfum við að koma í veg fyrir að Íslendingar sem ferðast úr landi, flytji aftur með sér smit. Hér má vel sjá fyrir sér að prófun og sóttkví verði gerð að skilyrði við heimkomu. En ekki síður að Íslendingar þurfi að gefa upp nákvæmar upplýsingar um ferðalög sín. Gætu þurft að skila af sér slíkum upplýsingum í gegnum smáforrit í símanum. Þar sem hægt væri að sjá nákvæmar upplýsingar um ferðir þeirra. Þetta væri gert til að tryggja að smithætta væri lágmörkuð.

Í þriðja lagi þarf að vera til staðar fólk sem er tilbúið til þess að starfa í ferðaþjónustu. Ég hef verið að fylgjast með aðbúnaði þeirra sem starfa í þjónustu hér á landi á meðan þessi farsótt er að ganga yfir. Það er með ýmsum hætti. Ég er ekki viss um að fólk sé tilbúið til þess að leggja sig í lífshættu til þess að þjónusta ferðafólk. Sem kallar einmitt á það sem ég nefndi hér fyrir ofan. Að við getum með einhverjum hætti tryggt að fólk sé ekki að smita.

Ég hef sjálfur unnið í íslenskri ferðaþjónustu. Það er bæði gefandi og skemmtilegt, því Ísland er stórkostlegt land heim að sækja. Ég geri ráð fyrir að fjölmörg þeirra fyrirtækja sem í greininni eru. Muni fara í gjaldþrot. Sum þeirra voru einfaldlega svo veikburða að þetta áfall komast þau ekki í gegnum. Ég tel að það þurfi að verja fólk sem lagt hefur allt sitt undir, þannig að ekki verði gengið að persónulegum eignum þess, ef þær eru veðsettar gagnvart skuldum þessara fyrirtækja. Þannig eigi fólk möguleika á því að byggja sig upp aftur hraðar. Nú þegar er byrjað að ræða markaðsátak og það eru sannarlega tækifæri núna til þess að minna á okkur.

Við eigum líka að horfa á hvernig íslensk ferðaþjónusta getur komist út úr vítahring hárra bókunargjalda og hvernig íslenskt hugvit í upplýsingatækni getur lyft íslenskri ferðaþjónustu upp á næsta stig. Þar eru tækifæri til fjárfestinga og gleymum því ekki að ferðaþjónusta um allan heim er að ganga í gegnum nákvæmlega sömu hörmungar. Það er líka tækifæri.

--

--

Sigmundur Halldorsson

I get really excited about the impact of technology, effectiveness of marketing, social media and politics and I love to travel. In Icelandic and English.