Góð hugmynd er góð byrjun

Sigmundur Halldorsson
5 min readNov 11, 2020

Fyrir áhugafólk um frumkvöðlastarfsemi þá er áhugavert að skoða ástandið á Íslandi. Segja má að fyrir 2008 hafi áhuga á frumkvöðlastarfi verið takmarkaður. Fá fyrirtæki voru stofnuð og þau voru fæst þess eðlis að það þætti endilega mjög spennandi að starfa fyrir þau. Auk þess sem bankakerfið sogaði bókstaflega til sín mikið af starfsfólki sem annars hefði líklega verið starfandi í frumkvöðla fyrirtækjunum. En byrjum aðeins á að því að útskýra afhverju frumkvöðlafyrirtækin skipta í raun svona miklu máli á Íslandi. Kannski meira máli hér, en í löndunum í kringum okkur.

Ísland hefur í gegnum tíðina verið fremur fábreytt. Helsta undirstaða undir lífskjörum og útflutningstekjum voru fiskveiðar. Við háðum hér nokkrar milliríkjadeilur og náðum á endanum yfirráðum yfir 200 mílna efnahagslögsögu. En fiskurinn var takmörkuð auðlind og okkar varð það fljótlega ljóst að fleiri stoðir þyrfti til þess að standa undir þeim lifskjörum sem við stefndum að. Horft var til þess að virkja mætti orku og nýta í orkufrekum iðnaði. Sá sem mest hefur borið á er álframleiðsla. Þetta er hins vegar ekki mjög mannaflsfrek framleiðsla og þetta er raunar heldur ekki sterk undirstaða fyrir hátækniþróun. Svo við þurftum að fjölga stoðunum. Með einkavæðingu bankakerfisins tókst okkur svo að sigla glæsilega í strand um 2008, þegar tilraunin til að breyta Íslandi í alþjóðlegt fjármálaland reyndist á sandi byggð.

Í kjölfarið hefur tvennt gerst. Ferðaþjónstu rauk í gang. Varð fljótlega að meginstoð í bæði gjaldeyristekjum og atvinnusköpun. Ókosturinn við ferðaþjónustu er hins vegar sá að hún kallar ekki mikið af sérhæfðu og vel menntuðu starfsfólki. Raunar fremur þvert á móti. Það er þó eitt svið ferðaþjónustu sem kallar á dýrt og sérhæft starfsfólk. Það er í ferðatækni og þar hafa Íslendingar náð eftirtektarverðum árangri. Það má segja að Icelandair hafi þar verið í leiðandi hlutiverki til að byrja með. Þar áttuðu stjórnendur sig hratt á mikilvægi ferðatækni og fóru út í margvíslegar fjárfestingar. Sem reyndar skiluðu ekki miklu til Icelandair, en urðu þó grunnur að sterkum íslenskum ferðatækni fyrirtækjum. Nægir að benda á Bókun, en stofnendur þess komu að verkefnum fyrir Icelandair, áður en þeir stofnuðu Bókun. Bókun vakti athygli fyrir lausnir sínar og svo fór að Tripadvisor, sem er eitt stærsta ferðþjónustufyrirtæki í heimi, ákvað að festa kaup á Bókun. Þetta var staðfesting á að hér hefur verið að skapast bæði þekking og reynsla í gerð lausna fyrir ferðaþjónustu sem er gjaldgeng á heimsvísu. Þarna eru klárlega tækifæri, þó vissulega sé ferðaþjónustan í erfiðleikum sem stendur. Hitt sem gerðist var að fjárfestar fengu í alvöru áhuga á nýsköpunarfyrirtækjum.

Vandamálið við Ísland er að við erum örmarkaður. Sama hvernig á það er litið. Þá er langstærstur hluti íslenskra fyrirtækja aldrei neitt nema lítið eða meðalstórt Evrópskt fyrirtæki. En Ísland nýtur þó að nokkru leiti þessarar smæðar. Hér hefur nefnilega orðið til sæmilega gott frumkvöðlasamfélag. Samfélag sem hefur laðað að sér fjárfesta og fjárfestingu. Það hefur gerst í gegnum samvinnu bæði opinbera og einkaaðila. Mestur áhugi hefur verið á tæknifyrirtækjunum, en það er þó staðreynd að hér á landi skortir margt. Umhverfið er fremur fjandsamlegt sprotafyrirtækjum, því það eru gerðar miklar kröfur til eignafjármyndunar og skattakerfið hjálpar ekki endilega til. Íslensk stjórnvöld hafa líka komið sér í tækniskuld og standa löndum eins og Eistlandi langt að baki. Sem hefði þótt óhugsandi um það leiti sem Eistland gekk í ESB fyrir 15 árum síðan. Það hefur heldur ekki hjálpað til að við bjuggum hér við gjaldeyrishöft og krónan er ekki að hjálpa til. Eins og nefnt hefur verið. Það er engin fjárfestir sem nennir að setja sig inn í allt þetta séríslenska. En þrátt fyrir þetta eru tækifærin klárlega til staðar.

Það er nefnilega miskilningur að stóru tæknifyrirtækin, sem sumir vilja kalla “stacks” sem kannski mætti þýða sem stafla, séu svo sterk að þau búi yfir einokun á öllum mörkuðum. Það er raunar hægt að horfa til baka og sjá hvernig IBM og síðar Microsoft höfðu yfirburðastöðu varðandi ákveðna tækni. Svo bara breytist heimurinn og sú tækni fór að skipta minna máli. Það varð síðan að tækifærinu sem Google, Facebook, Amazon og Apple hafa nýtt sér. IBM er ennþá til og Microsoft er sannarlega sterkt fyrirtæki. Þau eru bara ekki lengur í sömu stöðu og þau voru. Þó Amazon virðist vera ósigrandi þegar kemur að verslun á netinu. Þá er Shopify dæmi um hvernig hægt er að hagnast á verslun á netinu, án þess að vera Amazon. Vöxturinn hjá Shopify er svo hraður að veltan hjá þeim var 60 milljarðar USD árið 2019, en bara á fyrstu 6 mánuðum þessa árs var hún komin í 50 milljarða. Enda Covid ekkert að minnka eftirspurn í verslun á netinu. Amazon er ekki einu sinni starfandi á Íslandi, en Shopify er nú þegar vel tengt inn í bæði íslenskar bókhaldslausnir og fjármálakerfið. Það eru því næg tækifæri í nýsköpun, þó það sé ekki skynsöm hugmynd að ætla sér að verða næsta Google, Amazon eða Facebook.

En það er samt ekki ástæða til þess að hræðast þessa aðila. Facebook var ekki í vandræðum með samkeppni við Google varðandi samfélagsmiðla og þó YouTube sé líklega þekktast fyrir videó, þá truflaði það ekkert sigurgöngu TikTok. Hættuleg samkeppni er aldrei sá sem er að gera það sama og stóru aðilarnir. Heldur þeir sem ákveða að gera eitthvað annað. Við getum nefnilega hugsað okkur að árið 1950 hefði ekki verið sérlega skynsamlegt að reyna fara í samkeppni við Detroit bílaframleiðendur. En á nákvæmlega þeim tíma urðu til fyrirtæki semsannarlega byggðu framtíð sína á bílnum. McDonalds og Walmart eru hvort tveggja fyrirtæki sem byggðu sitt á bílum, en voru ekki í samkeppni við GM eða Ford. Svo þó það hljómi eins og versta hugmynd í heimi. Þá eru öll ný tæknifyrirtæki að keppa við Google, Facebook, Amazon og Apple. Það er því allt eins víst að næsti risi í tæknigeiranum komi frá Íslandi. Til að byrja þarf ekki annað en góða hugmynd.

--

--

Sigmundur Halldorsson

I get really excited about the impact of technology, effectiveness of marketing, social media and politics and I love to travel. In Icelandic and English.